Veiðistaðalýsing Mýrarkvísl

Fyrsta veiðisvæði

0.5 Þjóðvegsbrú/Brúarbreiða (Vestur bakki).
Þjóðvegsbrú

Þjóðvegsbrú er frekar nýr veiðistaður. Þar er oft hægt að sjá laxa af brúnni sem gerir veiðina þar einstaklega spennandi. Við mælum þó með að menn fari varlega í að horfa af brúnni og þá bæði vegna umferðar sem er um brúnna og einnig til að styggja ekki fiskinn áður en staðurinn er veiddur. Best er að byrja að veiða staðinn við Girðingu fyrir ofan brú og veiða sig alveg niður fyrir moldarbarðið neðan við brúnna. Fiskurinn liggur yfirleitt í rennu sem er neðan við brúnna. Þessi staður getur haldið fiski frá opnun og út September ef nóg vatn er í ánni. Þarna veiðast oft einnig stórir urriðar.

1. Keldupollur (Vestur bakki).

Keldupollur er frekar smár veiðistaður en hann hefur þó verið að gefa stöku lax og heldur hann oft urriða í byrjun tímabils. Áin hefur rutt sér í gegnum bakka og myndað flottan göngustað svo það getur borgað sig að prufa Keldupollinn of veiða alveg niður á brotið sem er í síðustu beygjunni í ánni.

2. Garðspollur (Vestur bakki).

Garðspollur er skemmtileg breiða sem leynir á sér. Snemma á tímabilinu getur verið mikill urriði þarna og borgar sig að veiða þennan stað vandlega því að þarna veiðast oft stærstu urriðarnir í ánni. Einnig veiðist lax í Garðspolli og borgar sig að byrja alveg fyrir ofan beygjuna og veiða alla leið niður á breiðuna. Oft getur laxinn legið alveg með landinu hinu meginn svo eins og annarstaðar í Mýrarkvísl borgar sig að kasta alveg upp að bakkanum. Þetta er staður sem borgar sig að fara með nokkrar flugur yfir. Þessi veiðistaður er helst inni þegar gott vatn er í ánni en veiðin dettur yfirleitt niður í vatnsleysi.

2.5 Al’s Run (Austur bakki & Vestur bakki).

Al’s run er nýr veiðistaður sem heldur laxi á göngu tíma. Laxinn getur legið ofarlega í straumunum og alveg niður á brot. Einnig getur lax legið í rennunni neðan við staðinn. Til að veiða staðinn að austan borgar sig að vaða yfir mjög ofarlega afan við beygjuna ofan við staðinn,

3. Núpabreiða (Austur bakki).

Núpabreiða veiðist austan meginn, getur haldið töluverðu magni af urriða alveg efst í staðnum þar sem straumur fellur inn í veiðistaðinn og niður breiðuna. Lax stoppar stutt þarna á göngu svo það borgar sig að kasta á hann en passa sig að eiða ekki of miklum tíma í það. Neðarlega breiðir áin úr sér og rennur á vestur bakkanum þar sem hún safnar vatni svo það borgar sig að kasta alveg yfir á hinn bakkann.

3,5. Kletthylur neðri (Austur bakki).

Kletthylur neðri heldur oft laxi bæði á breiðunni sjálfri en oftar neðst í veiðistaðnum upp við klettinn. Frábær hits staður.

4. Kletthylur (Vestur bakki).

Kletthylur er frábær veiðistaður sem heldur yfirleitt laxi allt tímabilið. Laxinn liggur oft í strengnum milli Klettanna en hann getur einnig legið uppvið eða neðan við neðri klettinn en það borgar sig að veiða alla leið niður að og í gegnum Kletthyl neðri.

5. Klapparbreiða (Vestur bakki).

Klapparbreiða er frábær veiðistaður sem leynir á sér. Best er að veiða hann að vestan og byrja á að standa á klettinum og kasta langt niður fyrir sig. Laxinn liggur í rennu meðfram bakkanum hinu meginn en einnig veiðist töluvert að urriða.

6. Írland (Austur bakki).

Írland er með fallegri stöðum í ánni. Laxinn liggur oftar en ekki neðan við stóra bergið sem er útí miðjum veiðistaðnum. Írland er líka mjög góður urriða veiðistaður. Einnig getur lax legið í efri veiðistaðnum og þá er hann veiddur af austur bakkanum.

7. Hvammspollur (Vestur bakki).

Hvammspollur heldur yfirleitt fiski allt sumarið, sérstaklega í vatnsleysi og hann stoppar iðulega þar á göngu. Það borgar sig að fara varlega í að Kíkja í staðinn ofan af klettinum þar sem laxinn á auðvelt með að sjá mann. Best er annaðhvort að kasta ofan af klettinum efst eða að fara niður fyrir staðinn og kasta andstreymis og strippa hratt.

8. Strengur (Vestur bakki).

Strengur heldur oft laxi í vatnsleysi og leynist laxinn þá oft alveg efst í staðnum. Einnig er þetta staður sem borgar sig að kasta í á göngutíma.

9. Grófarpollur (Vestur bakki).

Grófapollur er veiðistaður sem geymir yfirleitt mikið magn af laxi, sérstaklega í vatnsleysi en það getur verið snúið að ná honum vegna öfugstreymi í staðnum. Laxinn getur legið alveg neðst í staðnum nær vestur bakkanum en einnig fyrir miðju dýpinu. Ef laxinn liggur á dýpinu er gott að kasta þungri smáflugu upp í hornið í klettinum og leyfa flugunni að dauðreka niðurfyrir staðinn þar sem undirstraumurinn flytur fluguna venjulega í átt að laxinum.

10. Skuggi (Vestur bakki).

Skuggi heldur yfirleitt ekki fiski en þó borgar sig að kasta á hann á göngutíma.

11. Kiðupollur (Vestur bakki).

Kiðupollur heldur yfirleitt ekki fiski en þó borgar sig að kasta á hann á göngutíma.

12. Hríspollur (Vestur bakki).

Hríspollur er frábær göngustaður svo það borgar sig að kasta á hann. Laxinn liggur yfirleitt nær vesturlandinu á undir straumnum. 

13. Ósapollur (Austur bakki).

Ósapollur er flottur veiðistaður sem getur haldið laxi. Þegar slóðin er keyrður upp með ánni er komið að hliði sem er keyrt í gegnum og þar er hægt að komast niður í gilið til að fara yfir ánna. Úti í hylnum er stór steinn sem klífur ánna og virðist laxinn halda sig í straumskilum þessa tveggja kvísla, með bakkanum austan meginn eða í miklu vatni niður á breiðunni. Við mælum með að menn standist þá freistingu að ganga fram á berg brúnina og líta ofan í hylinn áður en hann er veiddur því það er mjög líklegt að styggja laxinn með þeim hætti.

14. Krummastrengir (Austur bakki).

Krummastrengir er fallegur veiðistaður sem á það til að gefa væna laxa á göngutíma. Krummastrengur er lítill strengur sem fellur undir kletti. Best er að komast að staðnum frá Táarhyl (15) með því að vaða yfir ánna neðan við staðinn.

15. Táarhylur (Vestur bakki).

Táarhylur er einn fallegasti fluguveiði staðurinn í Mýrarkvísl og frábær hits veiðistaður. Það er annars vegar hægt að komast niður að ánni með því að ganga niður smá gil sem er sirka við miðjan hylinn en einnig er hægt að komast ofan frá að staðnum.

Í staðnum er renna þar sem fiskurinn getur haldið sig og er alla jafna lax í honum frá því að hann byrjar að ganga í ánna. Laxinn getur haldið sig alveg neðst í staðnum nálægt austurlandinu. 

16. Þverfoss (Vestur bakki)

Er göngustaður sem ætti þó ekki að eyða miklum tíma í.

17. Helluhylur (Austur bakki).

Er göngustaður sem ætti þó ekki að eyða miklum tíma í.

18. Ytri Kistur (Vestur bakki).

Er göngustaður sem ætti þó ekki að eyða miklum tíma í.

19. Skáfoss (Austur bakki).

Er göngustaður sem ætti þó ekki að eyða miklum tíma í.

20. Syðri Kistur (Austur bakki).

Er göngustaður sem ætti þó ekki að eyða miklum tíma í.

21. Borgarhúsapollur (Austur eða vestur bakki).

Er stór veiðistaður sem getur geymt marga laxa þar sem laxinn stoppar bæði þar til að hvíla sig eftir að hafa gengið flúðirnar og smáfossana að neðan ásamt því að vera góður hrygningar staður. Laxinn getur legið víða uppí dýpinu en algengast er að hann liggi með austur landinu út af eða undir gras syllu sem er á milli klettana. Borgarhúsapollur er einn gjöfulasti veiðistaður árinnar. Gott er að vaða yfir ána neðan við staðinn og labba upp með ánni eins langt og hægt er og kasta síðan upp í hylinn. Einnig er möguleiki á að komast ofan í hylinn bæði að austan og vestan verðu fyrir ofan hylinn. Það er hægt að veiða hylinn frá einstigi sem er ofan við staðinn á austurbakka eða notast við kaðal til að komast ofan í staðinn miðjan. Þarna leynast líka mjög stórir urriðar.

Besta leiðin til að komast að Borgarhúsapolli er að labba niðureftir frá Veiðistað 23 eða upp með ánni frá veiðistað 20 (5mín). Athugið að skiltið fyrir Borgarhúsapoll er langt frá veiðistaðnum sjálfum og staðurinn er ekki nálægt veginum. 

22. Skarði (Vestur bakki).

Besta leiðin til að komast í þennan veiðistað er að leggja við bílastæðið þar sem skilti fyrir staði 23 og 24 er og ganga síðan niður eftir þar til að komið er að skarðinu og ganga svo skarðið niður að staðnum. Flottur fluguveiðistaður sem getur haldið laxi á göngu.

Annað veiðisvæði

23. Ármót Ytri (Vestur bakki).

Er góður laxastaður sem leynir á sér. Laxinn liggur yfirleitt undir strengnum og getur því verið mikilvægt að veiða djúpt og nota straumana til að bera fluguna niður til laxins.

24. Ármót Syðri (Vestur bakki).

Er góður laxastaður sem yfirleitt er með topp fimm stöðum árinnar. Aðgengið að staðnum getur verið ógnandi en þegar menn komast uppá lagið með staðinn er nánast ekki hægt að fara laxlaus úr staðnum. Í miklu vatni liggja yfirleitt laxatorfur neðst í hylnum alveg niður á brot og er best að veiða staðinn af einstiginu þar sem þú sérð laxana. Þegar vatn minnkar færa þeir sig oft ofar í hylinn þar sem hann er dýpri og þá borgar sig að veiða andstreymis með því að labba niður einstigi neðan við staðinn og vaða út á mitt brotið og kasta langt upp staðinn.

25. Langhylur.

Langhylur er erfiður viðureignar en heldur oft laxi.

26. Nafarhylur (Vestur bakki).

Er stórkostlegur hits veiðistaður og þar er oft hægt að sjá laxinn. Besta leiðin til að komast að staðnum er að leggja á planinu við skiltið og ganga upp með veginum þar til komið er að gilinu sem hægt er að labba niður að ánni. Laxinn getur haldið sig í pollinum þar sem áin byrjar að þrengjast eða á breiðunni sem er fyrir neðan þrenginguna.

Laxinn getir legið alveg efst í staðnum í djúpa pollinum alveg efst undir straumnum en oftar við endann á straumnum. Einnig liggur laxinn oft í rennunni neðan við djúpa pollinn og alveg niður á brot.

26.5. Trölladyr ómerktur staður. (Austur bakki).

Trölladyr er lúmskur veiðistaður sem geymir alltaf mikið magn af laxi.
Þegar gengið er niður í gilið á leið í Nafarhyl er vaðið yfir ánna og labbað upp með ánni eins langt og hægt er og þaðan er hægt að kasta andstreymis á breiðuna. Einnig er einstigi fyrir ofan staðinn til að veiða staðinn ofan frá. Laxinn getur legið alveg undir klöppinni austan megin.

27. Voðhylur (Austur bakki).

Er stórkostlegur veiðistaður sem borgar sig ekki að veiða einn. Til að komast að Voðhyl er farið yfir göngubrúnna ofan við 28. Og labbað niður að 27.. Þaðan er svo gengið niður með ánni í um það bil 4. mínútur og borgar sig að horfa ætíð niður að á og kíkja upp eftir reglulega til að ganga ekki framhjá honum. Þar sem staðurinn sést ekki vel frá göngustígnum er gott að vita að það sést glitta í stiga þegar horft er upp ána við staðinn. Staðurinn er oftast veiddur af syllu sem er fyrir ofan staðinn og borgar sig að láta ekki mikið á sér bera en einnig er hægt að læðast niður stigann til að veiða voðhyl en þá þarf að fara varlega. Það getur verið erfitt að fá fluguna til að ferðast hratt í svona þröngum veiðistað en það er þó besta leiðin til að setja í lax. Laxinn getur legið alveg undir klöppinni neðan við sylluna aða framan við stein sem er nær austur bakkanum og stóran stein sem er í miðri ánni. Í Voðhyl er gott að vera með þunga flugu til að ná niður til laxins.

28. Stokkhylur (Vestur bakki).

Er skemmtilegur fluguveiðistaður en heldur nánast undantekningarlaust laxi. Til að komast niður að staðnum borgar sig að styðjast við kaðal og þegar maður er kominn niður á fyrstu sylluna þarf að notast við kaðalinn til að komast á litla gras sillu til að geta athafnað sér almennilega. Einnig er hægt að fara niður einstigi niður að vatnsyfirborðinu og veiða staðinn andstreymis. Laxinn getur legið undir berginu báðum megin og alveg niður á brot. Hér borgar sig að nota þyngdar flugur til að ná til laxins. Í stokkhyl sér maður oft laxinn sem maður er að kasta til sem gerir veiði virkilega spennandi.

28.5 Stokkhylur efri (Austur bakki).

Einnig getur lax legið ofan við rennuna í Stokkhyl en þá borgar sig að veiða staðinn austan meginn.

29. Ytri Stekkur (Austur bakki).

Er skemmtilegur veiðistaður sem heldur alla jafna miklu magni af laxi. Besta leiðin til að komast að staðnum er að labba yfir á göngubrúnni sem er fyrir neðan staðinn labba upp með ánni upp fyrir 29. Og fara ofan í gilið milli 29. Og 30.. Laxinn getur haldið sig í straumskilunum norðan en einnig getur hann verið nálægt bakkanum sem maður stendur á fyrir framan grjót sem er þar og borgar sig að veiða niður allan staðinn.

30. Syðri Stekkur (Austur bakki).

Syðri Stekkur er frábær fluguveiðistaður sem heldur yfirleitt laxi og borgar sig að gefa honum tækifæri á leiðinni niður að Ytri stekk. Laxinn liggur yfirleitt undir strengnum sem rennur með vestur landinu en getur þó einnig legið í vikum austan meginn sérstaklega í miklu vatni.

31. Sigurðarflúð (Vestur bakki).

Sigurðarflúð er göngustaður sem getur borgað sig að kasta á göngutíma.

32. Steinfoss (Vestur bakki).

Steinfoss er frábær urriða staður en þarna leynist oft lax, alveg neðst við grjótgarðinn. 

33. Brúarhylur (Brúarbeygja) (Vestur bakki).

Er mjög góður stólaxastaður og liggur yfirleitt alltaf lax þarna sérstaklega á haustin. Geggjaður hitch og smá flugustaður. Brúarbeygja er góður veiðistaður og hefur áin grafið sér djúpa rennu í Beygjunni og getur laxinn legið alveg frá neðri brún á hólmanum og niður fyrir næstu beygju fyrir neðan.

34. Hólmapollur (Vestur bakki).

Of kallaður Sigmarsdráttur. Þessi veiðistaður heldur oft miklu magni af laxi en þó getur verið erfitt að ná honum á flugu. Laxinn heldur sig annað hvort á speglinum fyrir innan þar sem áin keyrir á bakkann eða undir grasbakkanum og borgar sig að veiða alveg niður að því þar sem fellur úr staðnum. Einnig getur verið gott að kasta andstreymis á staðinn.

35. Túnapollur (Austur bakki).

Túnpollur er einn besti laxastaðurinn í ánni. Frábær staður fyrir hits og smáflugur á yfirborðinu. Túnapollur geymir lax yfirleitt frá byrjun veiði tímabilsins og út haustið. Áin er ekki breið þarna og borgar sig því að nálgast staðinn varlega og byrja vel ofan við staðinn og kasta langt niður eftir. Göngufiskur getur tekið alveg niður á broti. Túnapollur er virkilega djúpur og gefur þar afleiðandi alveg jafnvel í sól.

36. Gljúfrapollur (Vestur bakki).

Gljúfrapollur er veiðistaður sem gefur lax allt sumarið og getur verið sérstaklega gott að veiða hann á morgnana. Gljúfrapollur hafði skemmst með tímanum en fyrir sumarið 2016 grófum við úr honum og hefur hann gefið góða veiði síðan. Þetta er síðasti hvíldarstaður fyrir laxinn áður en hann gengur upp laxastigann. 

Þriðja veiðisvæði

37. Höfðaflúð (Vestur bakki).
Efri Höfðaflúð

Höfðaflúð er frábær veiðistaður og stoppar lax alltaf þarna á göngu. Laxinn getur legið hvar sem er á breiðunni á efra brotinu en heitasti staðurinn er utanverður strengurinn nær austurlandinu. Á neðri pallinum við klettinn er fiskurinn yfirleitt á brotinu og getur hann verið alveg frá strengnum með austur landinu og alveg að bakkanum að vestan en heitasti staðurinn er rétt ofan við brot í miðri ánni. Gott er að skyggna staðinn af klettinum en þá þarf að fara varlega til að styggja ekki staðinn.

38. Gæsahólmi (Neðri Vestur bakki) (Efri Austur bakki).

Gæsahólmi er lítil flúð of breiða þar fyrir neðan, Staðurinn er mjög viðkvæmur og ber að nálgast með varúð og passa sig að labba ekki bakkann meðfram staðnum. Í staðnum er lygna við austur bakkann og höfum við fengið lax frekar ofarlega á skilum straumsins og lygnunnar en aðal tökustaðurinn er neðst í staðnum aðeins yfir miðju. Einnig liggur laxinn oft bæði uppvið hólmann ofan við flúðina þar sem glittir í stórt grjót við bakkann eða upp með háa bakkanum fyrir ofan hólmann. Það borgar sig að veiða efri gæsahólma að austan. Það borgar sig að vaða yfir rétt neðan við girðingu og veiða frá horninu á háa bakkanum og niður fyrir flúðina.

39. Stóri Krókur (Vestur bakki).

Stóri krókur er góður laxastaður þegar lax er á göngu. Laxinn liggur yfirleitt frá miðjum hylnum niður að broti nær vestu landinu. Þarna geta verið vænir urriðar.

40. Stífla (Vestur bakki).

Stífla er góður laxastaður þegar lax er á göngu og er einnig fínn urriðastaður. Labba þarf frá bílastæði niður að á í gegnum móa. Laxinn tekur yfirleitt neðarlega í hylnum nær austur bakkanum en þó ekki alveg niður á broti. Mikilvægt er að kasta flugunni alveg í vikið við austur landið.

41. Langalygna (Vestur bakki).

Langalygna er einn besti veiðistaðurinn í ánni og er í raun tveir veiðistaðir. Annars vegar labbar maður í hjólförunum niður að ánni og byrjar að veiða fyrir ofan beygjuna. Laxinn heldur sig í strengnum milli steina og lygnu á hinum bakkanum alveg þar til áin beygir. Seinni staðurinn er brot aðeins neðar í ánni. Báðir staðirnir er mjög viðkvæmir og hefur það reynst mér best að vera ofan í ánni meðan ég veiði þá en ekki uppá bakka.

42. Krókhylur (Vestur bakki).

Krókhylur er mjög gjöfull laxveiðistaður út allt tímabilið. Þegar bílnum er lagt við skiltið er labbað frá ánni og alla leið upp fyrir beygjuna, þar er flúð áður en áin breiðir úr sér sem heldur nær alltaf urriða. Síðan vinnur maður sig niður beygjuna og getur lax alveg við stúrinn á grjótgarðinum niður alla beygjuna og niður að moldarbakka þar sem brýtur smávegis á grjóti á hinum bakkanum og borgar það sig að kasta alveg yfir á hinn bakkann.

43. Tóftarflúð (Austur bakki).

Er góður laxastaður sem er vanmetinn, sérstaklega á haustin. Laxinn liggur yfirleitt á neðri pallinum alveg niður á broti að austan.

44. Seláspollur (Austur bakki).

Er góður laxastaður og heldur hann laxi allt sumarið. Varist að labba bakkan niður á brot í fyrstu umferð þar sem laxinn getur styggst við það. Á Efri pallinum getur laxinn legið frá miðjum hylnum og alveg niður á blá brot. Á neðri pallinum liggur laxinn yfirleitt í kringum stórt grjót sem brýtur á. 

45. Víðihólmar (Vestur bakki).

Er góður laxastaður og heldur hann laxi allt sumarið. Laxinn liggur á báðum pöllunum en varast skal að ganga með bakkanum þar sem laxinn getur legið mjög nálægt landi. Efri pallinn þarf að nálgast með varúð en laxinn getur legið þar sem straumarnir mætast og alveg niður á brot. Þegar líður á getur laxinn legið ansi ofarlega á efri pallinum. Neðri pallurinn heldur laxi alveg frá straumunum sem falla í hann og niður á brot báðu meginn. 

45.5 Ómerktur urriðastaður Brjósthylur (Vestur bakki).

Þegar keyrt er niður brekkuna á eftir veiðistað 45. Og komið niður á flatan sést á vinstri hönd nibba sem minnir á brjóst er fínt að keyra uþb. 50m upp fyrir brjóstið og byrja að veiða sig niður fyrir brjóstið. Þarna höfum við fengið marga urriða.

46. Beygjur (Vestur bakki).

Beygjur eru frábær veiðistaður sem heldur nær undantekningarlaust laxi. Til að komast niður að staðnum er bílnum lagt við skiltið og labbað göngustíg niður að á. Best er að byrja að veiða beygjurnar þaðan sem áin er þrengst og kasta yfir á hinn bakkann. Aðal tökustaðurinn er útaf miðjum moldarbakkanum þar sem eru stór grjót en það borgar sig að veiða staðinn alveg niður að viki sem er rétt eftir að moldarbakkinn endar.

47. Langidráttur (Vestur bakki).

Er góður urriðastaður en hefur ekki haldið laxi.

48. Vikdráttur/Kötustrengur (Austur bakki).

Vikadráttur/Kötustrengur getur verið gjöfull veiðistaður en laxinn getur legið alveg efst í staðnum og borgar sig að vaða yfir og veiða frá austur bakkanum eða byrja langt fyrir ofan staðinn og kasta langt niður fyrir sig af vestur bakkanum.

49. Straumbrot.

Straumbrotið er veiðistaður sem heldur nær alltaf laxi og er einn besti veiðistaðurinn í ánni. Við löguðum rennslið í staðinn og eftir það hefur hann gefið gríðar marga laxa. Okkur hefur reynst best að standa efst á við moldarbakkann og veltikasta yfir hylinn eða vaða yfir fyrir ofan staðinn og veiða með að kasta í átt að moldarbakkanum og draga fluguna rólega inn. Mikilvægt er að draga fluguna alveg yfir allan staðinn þar sem laxinn getur elt alveg upp að landi. Einnig er klöpp á horninu neðan við beygjuna og getur laxinn legið undir klöppinni.

50. Helghólsbrot.

Er fínn urriðastaður sem borgar sig að kasta þurrflugu á mjög nálægt bakkanum. Þarna veiðist stöku lax.

51. Neðri Selvaðsdráttur.

Neðri Selvaðsdráttur er staður sem heldur laxi flest ár en það getur verið erfitt að veiða hann þar sem það þarf að kasta mjög langt yfir að hinum bakkanum. Besti tökustaðurinn er þar sem strengurinn fellur í staðinn og fyrir miðjum hylnum en laxinn getur legið víða.

52. Efri Selvaðsdráttur.

Urriðastaður.

52.5 Rörið.

Laxinn getur legið í djúpu pollunum neðan við rörin eða ofan við norðari rörið alveg þar sem fellur ofan í það. 

53. Hringhylur.

Er djúpur og mikill staður sem borgar sig að veiða með sökklínu. Hylurinn er gríðarlega góður urriðastaður en þar hefur ekki veiðst lax í mörg ár.

54. Kopphylur.

Kopphylur er efsti merkti veiðistaður í ánni og getur geymt mikið magn af urriða en ekki hefur veiðst lax þar í mörg ár.