Lónsá á Langanesi

4 stanga silungveiðisvæði stórir sjóbirtingar, urriðar og bleikjur og Laxavon!

Lítil perla sem geymir stóra fiska

Lónsá er lítil veiðiperla á Langanesi. Lónsá er í um 5 mínútna fjarlægð frá Þórshöfn og rennur áin í sjóin stutt frá bænum Ytra Lóni.

Lónsá hefur í gegnum tíðina verið þekkt fyrir góða sjóbleikju veiði en bæði sjóbirtingur og staðbundin urriði hefur aukist mikið síðustu ár.

Lónsá hentar einstaklega vel til þurrfluguveiða en einnig veiðist mjög vel á hefðbundnar straumflugur og púpur.

Á fyrri helmingi tímabilsins í apríl, maí er aðalega veiði á ósasvæðinu og í Sauðaneslóni ásamt staðbundinum urriða ofar í ánni. Í maí og júni getur verið hreint æfintýraleg veiði á bleikju og sjóbirting sem lónir á ósasvæðinu í æti og við þær aðstæður geta menn nánast verið að fá fisk í hverju kasti.

Stærstu bleikjurnar byrja einnig að ganga upp ánna í byrjun júní en frá miðjum júní og út júlí er alla jafna besti tíminn í ánni til að veiða stórar bleikjur þar til eftir miðjan júlí þegar urriða veiði fer einnig að aukast þar sem urriðar úr Sauðanes Lóni og Ytra Lóni færa sig upp ánna til hrygningar. Á haustin má einnig merkja smáar sjóbirtings og laxgöngur en haustveiðin hefur í raun og veru ekki verið nógu vel rannsökuð fram að þessu.

Þrátt fyrir litla ástundun síðustu ár hefur veiði á stöng frá landi Ytra Lóns verið í kringum 500 silungar ár hvert.
Nú er heimilt að veiða í allri ánni og er hægt að veiða lang leið upp á heiði í Lónsá, Þverá og Hólslæk en þar eru einnig tvö grunn stöðuvötn sem tengjast læknum. Það liggur vegur upp með ánni að túninu við Grund en þaðan þarf að ferðast til að veiða hana á tveimur jafnfljótum.

Í gegnum tíðina hefur verið netaveiði í Sauðanes lóni á hverju vori en henni hefur nú verið hætt og verður því eingöngu veitt á stöng á svæðinu frá sumrinu 2014.

Þetta er fallegt lítil á sem getur geymt mikið magn af fiski í ósnortinni náttúru Langanes.

Veiðireglur

Veitt er á svæðinu frá 1. Maí til 30. Oktober.
Seldar eru stakar stangir frá morgni til kvölds.
Veiðitími eru 12 tímar á sólahring frá 07:00 til 24:00 í samráði við veiðivörð.

Seldar eru 4 stangir á dag í Lónsá en einnig er hægt að veiða í Sauðaneslóni og Ytra Lóni.

Eingöngu er veitt á flugu í Lónsá og Sauðanesós en leyfilegt er að veiða á spún og maðk í Ytra Lóni.

Kvóti í Lónsá og Sauðanesós er 5 fiskar á dag undir 45cm á hverja stöng. Í Ytralóni er hins vegar enginn kvóti á fiski undir 45 cm. Sleppa skal öllum fiski yfir 45cm undantekningarlaust, líka í Ytralóni, og ef stór fiskur drepst að lokinni viðureign ber að tilkynna leigutaka eða veiðiverði strax áður en haldið er áfram að veiða

Veiðihús

Tilboð verður í allt sumar (2020) á gistingu á  Ytra Lóni fyrir veiðimenn.  
7.500 kr á manninn miðað við við 2 í íbúð.  Uppábúið með morgunmat.

Vinsamlega bókið beint á ytralon.is með afsláttar kóðanumVOR20 fyrir gistingu í Maí eða fyrir júni, júli og ágúst er afsláttar kóðanum SUMAR20.

Á Ytra Lóni búa Sverrir Möller og Mirjam Blekkenhorst ásamt börnum sínum. Þau sjá um veiðivörslu. Þau bjóða jafnframt upp á gistingu og veitingar ásamt margvíslegri afþreyingu. Sími: 468-1242 / 846-6448,, netfang: [email protected]. Heimasíða:www.ytralon.is.

Annað

Veiðimönnum ber að fara sérstaklega varlega við bakka frá 20. maí til 20. júní vegna æðarvarps. Náttúran er einstök á Langanesi og er mikið fuglalíf við ána og lónin. Þar ber mest á kríum, æðarfugli og ýmsum andategundum, ásamt gæsum og rjúpu. Yfir þessu veisluborði vakir fálkinn og stundum sést brandugla á kvöldin. Því skal gæta þess að fara varlega, sérstaklega á varptíma og einnig í og eftir sauðburð þegar lömb eru á túnum.

Meðalveiði um 500 silungar.